Hér er hægt að skoða hvað stendur í lögum um at-vinnu fyrir fatlað
fólk.
Auð-lesin texti efst.
Heildar texi fyrir neðan.
Auð-lesin texti:
Samningur Sameinu þjóðanna
26. grein hæfing og endur-hæfing
Fatlað fólk á rétt á þjónustu sem ýtir undir sjálf-stæði, heil-brigði, félags-færni og
þátt-töku í sam-félaginu á öllum sviðum
lífsins.
Um leið og fötlun kemur í ljós á að bjóða upp á hæfingu.
Hæfingin skal veitt af fag-fólki, við eðlilegar að-stæður, nálægt heima-byggð og með þeim tækjum sem völ er á.
27. grein at-vinna:
Fatlað fólk á rétt á at-vinnu og launum til jafns á við aðra.
Hinn almenni vinnu-markaður skal vera að-gengilegur fötluðu fólki.Til þess þarf við-eignadi hagræðingu Tryggja þarf:
· Bann við mis-munun vegna fötlunar.
· Rétt fatlaðs fólks til vinnu-umhverfis sem er sann-gjarnt og hvetjandi.
· Jöfn tæki-færi og sömu laun fyrir sömu vinnu.
· Vinnu-um-hverfi sem er öruggt og heil-brigt.
· Vernd gegn áreitni.
· Vernd stéttar-félaga.
· Starfs-hæfingu á vinnu-stöðum.
· Sömu tæki-færi til starfs-frama.
· Tæki-færi til sjálf-stæðrar atvinnu, til dæmis með því að stofna fyrirtæki.
· Vinnu hjá ríki og sveitar-félögum.
· Stefnu-mótun og að-gerðir sem tryggja allt þetta.
Passa þarf að fatlað fólk sé ekki þvingað til þess að vinna.
Lög um þjónustu við fatlað fólk með lang-varandi stuðnings-þarfir
8. grein stoð-þjónusta
Að fatlað fólk á rétt á aðstoð sem er nauðsynleg til að geti tekið þátt í samfélaginu án aðgreiningar.
Aðstoðin á meðal annars að hjálpa fólki við að búa sjálfstætt og taka þátt í tómstundum og félagslífi og atvinnulífi.
Aðstoða á fötluð börn og foreldra þeirra þannig að börnin fá góða umönnun og öruggt heimili.
Það á líka að aðstoða fatlaða foreldra við umönnun og uppeldi barna sinna.
Ef sveitarfélög ætla að leggja niður einhverja þjónustu-stofnun þurfa þau að kanna fyrst hvað hagsmuna-samtökum og ráðherra finnst um það.
11. grein Not-enda-stýrð persónu-leg aðstoð N.P.A
Að fatlað fólk á rétt á NPA þurfi það mikla aðstoð við að hugsa um sjálft sig, heimil sitt og taka þátt í félagslífi, vinnu og námi.
Einstaklingurinnn sjálfur skipuleggur þá hvernig aðstoðin er veitt og ræður fólk til þess að aðstoða sig.
Þeir sem vegna fötlunar eiga erfitt með að skipuleggja aðstoðina eiga rétt á að fá sérstaka aðstoð við það.
22. grein og 23. grein Almennt um at-vinnu
Vinnumála-stofnun á að skipuleggja vinnumál fyrir fatlað fólk, t.d. reka vinnu-miðlanir og meta vinnufærni. Vinnumála-stofnun á líka aðstoða fatlað fólk að við að fá vinnu og styðja það á almennum vinnumarkaði.
Sveitarfélögin bera ábyrgð á verndaðari vinnu, hæfingu og virkniþjálfun.
Fatlað fólk á að hafa forgang að vinnu hjá ríkinu og sveitarfélögum ef það hefur sömu getu og aðrir til að vinna starfið.
24. grein Vernduð vinna, hæfing og dag-þjónustu
Að fatlað fólk skuli eiga kost á atvinnu og hæfingu til að auka möguleika þess til þátttöku í daglegu lífi.
Sveitarfélögin eiga að bjóða uppá verndaða vinnustaði og hæfingarstaði og veita fötluðu fólki margs konar dagþjónustu.
Það á líka veita starfsþjálfun á almennum vinnumarkaði
Reglu-gerð um at-vinnumál fatlaðra
1. Kafli Gildis-svið og markmið
Þessi lög eru til að aðstoða fatlað fólk við vinnuna.
Styðja á fatlað fólk með:
1. Starfs-ráðgjöf
2. Aðstoð í vinnu
3. Hæfing og iðja
4. Verndaði vinnnu-staði
2. kafli starfs-ráðgjöf, atvinnu-leit og vinnu-miðlum
Ráðgjöf fyrir fatlað fólk til að finna vinnu út frá getu og áhuga
3.kafli Vinna á almenna vinnu-markaði
Fatlað starfsfólk á að fá aðstoð á almennum vinnu-markaði
Eins og:
1. Meiri liðveislu
2. Verk-stjórn
3. Starfs-þjálfun
4. Vinna á vernduðum vinnu-staði
4. Kafli Hæfing og iðja
Fatlað fólk á rétt á hæfingu og iðju sem hentar hverjum og einum
5. Kafli Verndaðir vinnu-staðir
Það má opna verndaða vinnu-staði til að hjálpa fötluðu fólki að fá vinnu og eiga að fá laun fyrir að vinna
Fatlaður starfs-maður á að fá að vita:
1. Hvað hann á að geta
2. Vinnutíma
3. Laun
4. Upp-sagningar-frest
Skoða á hvort starfs-maður getur unnið á almennum vinnu-markaði
Heildar texti:
Samningur Sameinu þjóðanna
26.gr. Hæfing og endur-hæfing
1. Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir, m.a. annars með til styrk jafningjaaðstoðar, til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast sem mest sjálfstæði, fulla líkamlega, andlega og félagslega getu, ásamt starfsgetu, og að vera þátttakendur í lífinu á öllum sviðum án aðgreiningar, ásamt því að viðhalda þessum gæðum. Til þess að svo megi verða skulu aðildarríkin skipuleggja, efla og útvíkka þjónustu og áætlanagerð á sviði alhliða hæfingar og endurhæfingar, einkum að því er varðar heilbrigði, atvinnu, menntun og félagsþjónustu, með þeim hætti að fyrrnefnd þjónusta og áætlanir:
a) hefjist eins snemma og frekast er unnt og séu byggðar á þverfaglegu mati á þörfum og styrk hvers einstaklings um sig.
b) stuðli að þátttöku í samfélaginu og þjóðfélaginu á öllum sviðum án aðgreiningar, séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst samfélögum þess, einnig til sveita.
27. gr. Vinna og starfs
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá
ráðrúm til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á
vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því
aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, m.a.
fyrir þá sem verða fatlaðir meðan þeir gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, til að
mynda með lagasetningu, til þess meðal annars:
a) að leggja bann við mismunun vegna fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, m.a. nýskráningar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,
b) að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, m.a. jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað, þ.m.t. vernd gegn stöðugri
áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,
c) að tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að nýta sér atvinnuréttindi sín og réttindi sem meðlimir
stéttarfélaga til jafns við aðra,
d) að gera fötluðu fólki kleift að hafa með virkum hætti aðgang að tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfsþjálfun og símenntun sem almenningi stendur til boða,
e) að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk og stuðla að starfsframa þess á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað,
f) að stuðla að tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa samvinnufélög og stofna eigin fyrirtæki,
g) að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans,
h) að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum,
i) að tryggja að fatlað fólk á vinnustað fái notið viðeigandi aðlögunar,
j) að stuðla að því að fatlað fólk geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,
k) að stuðla að starfstengdri og faglegri endurhæfingu fatlaðs fólks, að því að það haldi störfum sínum og að framgangi áætlana um að það geti snúið aftur til starfa.
Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir
8. Stoðþjónusta
Fötluðu fólki skal standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess. Stoðþjónustu þessa skal veita í hverju sveitarfélagi með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Skal hún miðast við eftirtaldar þarfir:
1. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir þjónustu sem felst í því að treysta möguleika þeirra til sjálfstæðs heimilishalds og samfélagslegrar þátttöku.
2. Þarfir fatlaðra einstaklinga til hæfingar, endurhæfingar, menntunar og atvinnu, m.a. á grundvelli viðeigandi aðlögunar, svo að þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.
3. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir sérhæfða ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þ.m.t. ástundun tómstunda og menningarlífs.
4. Þarfir fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri þjónustu við fjölskyldur þeirra svo að þær geti búið börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði.
5. Þarfir fatlaðra foreldra vegna umönnunar og uppeldis barna sinna.
Sveitarfélag eða sveitarfélög sem starfa saman á þjónustusvæði skulu reka þjónustustofnanir til að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum ef ekki er mögulegt að veita þjónustuna í almennum úrræðum með viðeigandi aðlögun. Þeim er heimilt að bæta við þjónustustofnunum, sameina þær eða leggja niður starfsemi þeirra. Sé það mat sveitarfélags að ekki sé þörf fyrir þjónustustofnun eða sérúrræði er heimilt að leggja starfsemina niður að fenginni umsögn ráðherra. Sveitarfélag skal afla umsagnar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og eftir atvikum notendaráðs í viðkomandi sveitarfélagi áður en ákvörðun er kynnt ráðherra sem skal innan fjögurra vikna meta hvort hann leggist gegn lokun.
Félagasamtök, sjálfseignarstofnun eða annar einkaaðili sem vill hefja eða taka við þjónustuþætti samkvæmt þessari grein skal áður afla starfsleyfis skv. 7. gr.
11. gr Notendastýrð persónuleg aðstoð.
Einstaklingur á rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, svo sem við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi.
Aðstoðin skal vera skipulögð á forsendum notandans og undir verkstýringu og verkstjórn hans. Ef notandinn á erfitt með að annast verkstjórn vegna fötlunar sinnar skal hann eiga rétt á aðstoð við hana, sbr. þó ákvæði 6. gr. Aðstoðin skal um leið vera heildstæð þar sem þjónustukerfi félags-, heilbrigðis- og menntamála samhæfa aðstoð sína í þágu þess sem nýtur hennar.
Umsýsluaðili NPA-samnings ber vinnuveitendaábyrgð gagnvart starfsfólki sínu og skal sjá til þess að uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna sem aðstoða hann, m.a. hvað varðar aðbúnað á vinnustað þeirra, sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sveitarfélag getur afturkallað ákvörðun um umsýslusamning verði misbrestur þar á og hafi ekki verið bætt úr þrátt fyrir ábendingar þar að lútandi.
Ráðherra gefur út reglugerð og handbók um framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, m.a. um hlutverk og ábyrgð, skipulag og útfærslu, þ.m.t. viðmið um umfang þjónustu og lágmarksstuðningsþarfir, eftirlit og kostnaðarhlutdeild aðila í samráði við sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Sveitarfélög bera ábyrgð á framkvæmd aðstoðarinnar og skulu setja nánari reglur þar um í samráði við notendaráð fatlaðs fólks eða samtök fatlaðs fólks.
22. gr Almennt um atvinnu
Hvers konar atvinnu- og hæfingartengd þjónusta sem ætluð er fötluðu fólki telst til vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun annast skipulag og vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk, þar á meðal vinnumiðlun, mat á vinnufærni og mat á þörf fyrir vinnumarkaðsúrræði, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir. Skipulag, framkvæmd og rekstur vinnustaða fyrir verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun er á ábyrgð sveitarfélaga, nema annað sé sérstaklega ákveðið með samkomulagi ríkis og Vinnumálastofnunar.
Kostnaður vegna þjónustu Vinnumálastofnunar og vinnumarkaðsúrræða á vegum hennar greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal sérstakur stuðningur við atvinnuleitendur og eftirfylgni, svo sem kostnaður vegna vinnusamninga öryrkja, en kostnaður vegna vinnustaða fyrir verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun greiðist af sveitarfélögum, þar á meðal stoðþjónusta skv. 8. gr.
Fatlað fólk skal eiga forgang að störfum hjá ríki og sveitarfélögum ef hæfni þess til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja.
23. gr Samþætting þjónustu.
Þjónusta samkvæmt lögum þessum skal samþætt vinnumarkaðsaðgerðum skv. 22. gr. þannig að tryggt sé að fatlað fólk geti tekið virkan þátt í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum.
Til þess að tryggja samfellu á milli vinnumarkaðsaðgerða Vinnumálastofnunar og þjónustu sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum skulu ráðgjafar sveitarfélaga eða þjónustusvæða, sem þau mynda, leita eftir samstarfi og samráði á grundvelli samstarfssamninga við Vinnumálastofnun um atvinnumál fatlaðs fólks, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir.
24. gr Vernduð vinna, hæfing og dagþjónusta.
Fatlað fólk skal eiga kost á atvinnu- og hæfingartengdri þjónustu sem stuðlar að aukinni hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi til jafns við aðra.
Sveitarfélög skulu starfrækja vinnustaði fyrir verndaða vinnu, hæfingu og dagþjónustu fyrir fatlað fólk þar sem því stendur til boða þroska-, iðju- og starfsþjálfun.
Starfsþjálfun skal einnig standa til boða á vinnumarkaði með viðeigandi stuðningi samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.
25. gr Styrkir.
Sveitarfélögum er heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:
1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.
2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.
Ráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um framkvæmd styrkveitinganna á grundvelli ákvæðis þessa, svo sem skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja sér nánari reglur um styrkina á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Kostnaður vegna styrkja skv. 1. mgr. greiðist af sveitarfélögum.
Reglugerð um atvinnumál fatlaðra
I kafli Gildissvið og markmið.
1 .gr
Reglugerð þessi tekur til þeirra úrræða sem fram koma í lögum um málefni fatlaðra og ætluð eru til að styðja fatlaða í því að þjálfa og nýta vinnugetu sína og færni.
Úrræðum í reglugerð þessari skal beitt þannig að stuðningur til starfa á almennum vinnumarkaði gengur framar öðrum kostum. Þeir kostir sem þessi reglugerð tekur til eru eftirfarandi:
- Starfsráðgjöf, atvinnuleit og vinnumiðlun.
- Aðstoð við fatlaða í vinnu á almennum vinnumarkaði.
- Hæfing og iðja.
- Verndaðir vinnustaðir.
II. Kafli Starfsráðgjöf. Atvinnuleit. Vinnumiðlun
2 .gr
Svæðisskrifstofur skulu sjá til þess að fötluðum verði veitt ráðgjöf um möguleika þeirra til starfa með hliðsjón af starfsgetu, áhugasviði og framboði starfa, jafnt almenn ráðgjöf sem og sérhæfð með tiltekin störf í huga.
3.gr
Svæðisskrifstofur skulu skipuleggja atvinnuleit þar sem
henni er ekki sinnt af vinnumiðlun sveitarfélaga. Skal það gert með því að vinna kerfisbundið að því að finna störf við hæfi fatlaðra á svæðinu. Skal við það höfð nauðsynleg samvinna við atvinnurekendur, verkalýðsfélög og sveitarfélög.
4.gr
Svæðisskrifstofur skulu gera samninga við vinnumiðlun
sveitarfélaga um að útvega fötluðum einstaklingum atvinnu, sbr. III. kafla laga um vinnumiðlun, nr. 18/1985.
Svæðisskrifstofur skulu hafa umsjón með því að fötluðum
verði útveguð vinna samkvæmt reglugerð um öryrkjavinnu nr. 159/1995. Sá sem fær vinnu samkvæmt reglugerð um öryrkjavinnu fellur einnig undir reglugerð þessa eftir því sem við á, þó ekki um kaup og kjör.
5.gr.
Þar sem svæðisskrifstofa málefna fatlaðra hefur falið vinnumiðlun sveitarfélags að annast atvinnuleit fyrir fatlaða skal sú vinnumiðlun m.a. sinna þeim verkefnum sem svæðisskrifstofum hafa verið falin í 2., 3. og 4. gr.
III. KAFLI Aðstoð við fatlaða í vinnu á almennum vinnumarkaði.
6.gr.
Fötluðum starfsmönnum á almennum vinnumarkaði skal veitt eftirfarandi aðstoð:
1. Sérstök liðveisla.
2. Verkstjórn.
3. Starfsþjálfun samkvæmt sérstökum samningi.
4. Vinna í verndaðri vinnuaðstöðu.
Þar sem fötluðum manni er veitt sérstök liðveisla, verkstjórn eða starfsþjálfun á almennum vinnumarkaði skal gerður sérstakur samningur milli hans og atvinnurekanda þar sem tilgreint er sérstaklega vinnutími, kaup og kjör.
Sérstök liðveisla er einstaklingsbundinn stuðningur við hinn fatlaða einkum í upphafi starfs í þeim tilgangi að aðstoða hann til að sinna störfum á almennum vinnumarkaði. Liðsmaður getur verið á vegum vinnumiðlunar, svæðisskrifstofu, verndaðs vinnustaðar eða fyrirtækisins. Einnig getur verið um að ræða sérstaka ráðningu til þess verkefnis. Vinnumiðlun, hafi verið við hana samið, eða svæðisskrifstofur sjá um greiðslur til atvinnurekenda eða liðsmanna eftir fyrirfram gerðum samningi.
Í verkstjórn felst að fyrirtæki á almennum vinnumarkaði, sem ræður til sín fatlaða starfsmenn í þeim tilgangi að veita þeim atvinnu eða markvissa starfsþjálfun til ákveðins starfs, er veittur stuðningur með þeim hætti að ráðinn er sérstakur maður til að sjá um verkstjórn fatlaðra. Launakostnaður fyrir verkstjórnina er greiddur með rekstrarstyrk til fyrirtækisins samkvæmt sérstökum samningi.
Með starfsþjálfunarsamningi er átt við samning um greiðslu ákveðins hluta af launum fatlaðs manns sem ráðinn er til starfa hjá fyrirtæki á almennum vinnumarkaði í þeim tilgangi að veita viðkomandi möguleika til starfs. Starfsþjálfun skal ætíð vera tímabundin. Vinnumiðlanir eða svæðisskrifstofa sjá um samningsgerð um vinnutíma og kaup go kjör.
Svæðisskrifstofu er heimilt að koma á fót verndaðri vinnuaðstöðu hjá fyrirtæki á almennum vinnumarkaði til að veita fötluðum atvinnu. Heimilt er að veita fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til stofnkostnaðar vegna nauðsynlegra breytinga á vinnustaðnum. Um samninga við einstaklinga gilda ákvæði 11. gr.
7.gr.
Svæðisskrifstofur skulu sjá um að starfsfólki á þeim vinnustöðum þar sem fatlaðir vinna, sbr. 6. gr., séu veittar leiðbeiningar og fræðsla, svo sem þörf krefur.
IV. KAFLI.Hæfing og iðja.
8.gr.
Í hæfingu felst kerfisbundin og alhliða starfs- og félagsleg þjálfun. Með hæfingunni skal stuðlað að því að einstaklingur verði hæfari til iðju eða atvinnuþátttöku. Stefnt skal að því að hæfingin sé tímabundin. Ekki er skylt að greiða laun fyrir hæfingu.
Iðja er fólgin í félagsþjálfun og einföldum vinnuverkefnum. Í iðju er lögð rækt við að ná tengslum við almennan vinnumarkað. Iðja getur orðið varanlegt úrræði. Ekki er skylt að greiða laun fyrir iðju.
Starfshæfing er tímabundið úrræði með þáttöku á almennum vinnumarkaði að markmiði. Ekki er skylt að greiða laun í upphafi starfshæfingar. Að loknu ákveðnu starfsþjálfunartímabili og eftir prófun og mat á vinnuafköstum einstaklingsins, skulu greidd laun, sem verði ákveðið hlutfall launa á almennum vinnumarkaði. Skal um þetta samið sérstaklega.
9.gr.
Fatlaðir skulu njóta hæfingar, starfshæfingar eða iðju, sbr. 8. gr., eftir því sem best hentar hverjum og einum. Getur sú þjálfun átt sér stað á hæfingar- eða endurhæfingarstöðvum, dagvistarstofnunum fatlaðra, vernduðum vinnustöðum eða á almennum vinnumarkaði; í síðastgreindu tilviki samkvæmt sérstökum, tímabundnum, samningi.
I. KAFLI. Verndaðir vinnustðir.
10. gr
Heimilt er að koma upp vernduðum vinnustöðum til að mæta þörfum fatlaðra fyrir þjálfun, fasta eða tímabundna vinnu.
Verndaðir vinnustaðir eru þjónustustofnanir fyrir fatlaða sem geta verið reknir af svæðisskrifstofu, sveitarfélögum eða félagasamtökum og er ætlað að stunda framleiðslu og/eða þjónustustarfsemi.
Verksvið verndaðra vinnustaða er:
A. Skapa atvinnutækifæri þar sem gerð er krafa um verulegt
vinnuframlag gegn launum.
B. Veita launuð störf þeim sem ekki ráða við sömu kröfur um
framleiðni og fram kemur í A lið.
C. Veita þjálfun, sbr. 8. og 9. gr.
11.gr
Þegar fatlaður maður ræður sig á verndaðan vinnustað skal rekstraraðili gera við hann samning þar sem tilgreind eru réttindi hans og skyldur. Nánar tiltekið skulu a.m.k. eftirtalin atriði koma fram í samningi:
1. Lýsing á starfi og/eða þjálfun.
2. Vinnutími.
3. Kaup og kjör.
4. Uppsagnarfrestur.
Samningar samkvæmt ákvæði þessu skulu gerðir við alla
fatlaða einstaklinga á viðkomandi vernduðum vinnustöðum. Eldri samningar, eða starfskjör sem ákvörðuð voru með öðrum hætti, skulu endurskoðaðir innan sex mánaða frá gildistöku reglugerðar þessarar.
Hlutaðeigandi rekstraraðili skal senda svæðisskrifstofu tilkynningu um alla gerða samninga samkvæmt ákvæði þessu.
12.gr.
Á vernduðum vinnustöðum skal með skipulögðum hætti endurmeta getu einstaklinga og
viðfangsefni í þeim tilgangi að starfgeta nýtist til annarra viðfangsefna eða
annarra starfs, t.d. á almennum vinnumarkaði.
VI. KAFLI.
13.gr. Kostnaður.
Kostnaður vegna reglugerðar þessarar, þ.á.m. kostnaður af 6. gr., greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
14.gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra öðlast gildi
þegar í stað. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um verndaða vinnustaði nr.329/1983